English

Velkomin(n) á vefsíðu rannsóknarverkefnisins LIFE-DCY

Hér getur þú fundið helstu upplýsingar um rannsóknarverkefnið sem beindist að lífsgæðum og þátttöku fatlaðra barna og unglinga á Íslandi. Raddir og reynsla barnanna voru í brennidepli þótt gagna væri aflað víðar.

Lífsgæði og þátttaka barna og unglinga: Umbreytingarannsókn

Rannsóknin var umbreytingarannsókn sem þýðir að við vildum greina það sem styður við eða dregur úr lífsgæðum og þátttöku fatlaðra barna og unglinga í von um að þekkingin hefði í för með sér jákvæðar breytingar. Gagna var aflað á fjölbreyttan hátt, svo sem með spurningalistum, viðtölum og þátttökuathugunum. Gagnrýnin sjónarhorn í fötlunarfræði voru höfð að leiðarljósi við úrvinnsluna.

Þótt rannsókninni sé formlega lokið heldur rannsóknarhópurinn áfram að birta niðurstöður og deila þeim með fræðafólki, hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra, þjónustuveitendum og almenningi. Yfirlit yfir birtar greinar má finna hér

Meira um markmið rannsóknar, rannsóknarsnið og helstu niðurstöður

Hverjir tóku þátt í rannsóknarverkefninu

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar var Snæfríður Þóra Egilson prófessor í fötlunarfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Aðrir rannsakendur voru Stefan Hardonk dósent í fötlunarfræði, Ásta Jóhannsdóttir lektor við Menntavísindasvið, og þrír doktorsnemar: Linda Björk Ólafsdóttir, Anna Sigrún Ingimarsdóttir og Freyja Haraldsdóttir. Erlendur samstarfsaðili var Barbara Gibson prófessor við Háskólann í Toronto. Rannsóknin var unnin í samstarfi við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og fleiri aðila.Háskóli Íslands | Sæmundargötu 2 | 101 Reykjavík | Netfang: sne@hi.is
Rannsóknarverkefni styrkt af Rannsóknasjóði (nr. 174299-051)